Glitnir og kínverska matvælafyrirtækið Fu Ji skrifuðu undir samning í gær þess eðlis að Glitnir verði ráðgjafi Fu Ji við vöxt fyrirtækisins á kínverska markaðnum, segir í fréttatilkynningu Glitnis. Samningurinn var undirritaður í móttöku í Sjanghæ, en meðal viðstaddra var forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Í tilkynningunni kemur fram að Fu Ji sérhæfir sig í alhliða þjónustu með tilbúin hágæðamatvæli og er umsvifamesta fyrirtækið á sínu sviði í Sjanghæ. Fyrirtækið er skráð í Kauphöllina í Hong Kong og markaðsvirði félagsins er um 150 milljarðar íslenskra króna. Fyrirtækið hefur vaxið hratt á undanförnum árum og samningurinn er liður í áætlun um vaxa enn frekar á kínverskum markaði. Skrifstofa Glitnis í Sjanghæ mun leiða verkefnið.