Útlán innlánsstofnana og markaðsverðbréf drógust saman um 56 milljarða í janúar eða um tæplega 2% eftir töluverða aukningu síðustu tvo mánuði síðasta árs, samkvæmt upplýsingum frá greiningardeild Glitnis.

"Á komandi mánuðum má gera ráð fyrir að það hægi enn frekar á útlánum bankanna þegar um hægist í hagkerfinu," segir greiningardeildin.

Verðbréfaeign innlánsstofnana minnkaði um rúmlega 23 milljarða og útlán til innlendra aðila drógust saman um tæplega 32 milljarða. Þetta kom fram í tölum sem Seðlabankinn birti í gær.

Gengisbundin útlán til innlendra aðila drógust saman um rúmlega 36 milljarða, sem jafngildir 3,4% samdrætti, segir Glitnir.

" Á sama tíma lækkaði gengisvísitala krónunnar um tæplega 6% þannig að leiðrétt fyrir gengisbreytingum jukust gengisbundin útlán um 2,7% eða rúmlega 26 milljarða. Hér verður þó að hafa í huga að samanburður á þróun gengisbundinna lána og þróun gengisvísitölunnar gefur ekki alveg rétta mynd því gengisvísitalan er vegin saman eftir vægi mynta í vöru og þjónustuviðskiptum. Erlend lán eru hins vegar að stórum hluta tekin í lágvaxtamyntum eins og jeni og Svissneskum franka sem vega fremur lítið í gengisvísitölunni. Verðtryggð lán jukust um 18 milljarða á sama tíma og sé leiðrétt fyrir verðbólgu nemur aukningin 15,6 milljörðum," segir greiningardeildin.

Á tólf mánuðum til janúarloka hafa innlend útlán og markaðsverðbréf aukist um 27,5%. Aukningin var meiri þegar aðeins er litið á innlend útlán eða 37,2% en minnkar þó úr rúmlega 41% frá í desember. Útlánaaukning og markaðsverðbréfaeign hefur minnkað nokkuð frá fyrri hluta síðasta árs þegar hún var á bilinu 50%-60%.