Útlán bankakerfisins einkennast enn af miklum vexti þó að úr honum sé að draga, segir greiningardeild Glitnis og vitnar í tölur frá Seðlabanka Íslands um útlán í apríl.

?Dregið hefur úr vexti útlána til íbúðakaupa þótt enn ríki mikil spurn eftir lánum og nýjustu tölur af verðþróun sýni áfram verðhækkun íbúða. Hertar útlánareglur banka gefa til kynna að verulega muni draga úr vexti útlána til íbúðarkaupa á næstunni og samdráttur muni jafnvel sjást í þeim efnum," segir greiningardeildin.

?Ef fjármálafyrirtækin í landinu ganga hart fram í þessum efnum er nær víst að íbúðaverð muni lækka þegar horft er til næstu missera. Mun það draga úr eftirspurn heimila og þenslu í hagkerfinu."

Gengisbundnar skuldir jukust verulega á milli mars og apríl í krónum talið eða alls um 9% og má rekja þá aukningu að mestu til gengislækkunar krónunnar. Gengisbundin skuldabréf nema nú alls um 1.566 milljörðum króna en meira en helming þess skulda fyrirtæki.

Heimilin í landinu hafa aukið þó nokkuð við gengisbundnar skuldir sínar sem hækka talsvert umfram gengislækkun krónunnar á milli mars og apríl. Samtals nema þær nú um 49 milljörðum króna.

?Ýmis heimili virðast því hafi tekið erlent húsnæðislán þegar gengislækkun krónunnar var hvað hröðust. Í ljósi þess geysilega vaxtamunar sem nú ríkir á milli Íslands og helstu viðskiptalanda kemur þetta ekki á óvart," segir greiningardeildin.