Innlánahlutfall Glitnis lækkaði úr 32% á fyrsta fjórðungi í 28% á öðrum fjórðungi. Sérfræðingurinn Andreas Håkansson, sem greinir Glitni fyrir svissneska fjárfestingabankann UBS, segir þróun innlána sem hlutfall af útlánum áhyggjuefni.

„Innlánahlutfallið er að færast í vitlausa átt. Það er nákvæmlega það sem við viljum ekki sjá hjá bönkum sem eiga í vandræðum með að fjármagna sig á heildsölumarkaði," segir Håkansson í samtali við Dow Jones fréttaveituna. Lárus Welding, forstjóri Glitnis, sagði á afkomufundi í morgun að stjórnendur bankans væru fullmeðvitaðir um þróun innlána gagnvart útlánum, og að stefnan væri að bæta úr þeim málum.