Glitnir [ GLB ] hefur ákveðið að kanna jarðveginn á meðal fjárfesta fyrir umfangsmikið alþjóðlegt skuldabréfaútboð og var fyrsti fundur fulltrúa bankans með fjárfestum haldinn á austurströnd Bandaríkjanna í gær.

Útboðið yrði að mestu í dollurum en heildarumfang þess verður ekki upplýst að sinni, að sögn Ingvars H. Ragnarssonar, framkvæmdastjóra fjárstýringar Glitnis. Bankarnir Barclays, Merrill Lynch og JP Morgan munu annast útboðið fyrir hönd Glitnis.

Glitnir gekk frá samningum um útgáfu skuldabréfa á Bandaríkjamarkaði í september sl. að upphæð 1 milljarður Bandaríkjadala í boði, eða um 63 milljarðar króna á þáverandi gengi, til fimm ára á tæplega 6,4% vöxtum. Var eftirspurnin ríflega umfram framboð, eða um 1,7 milljarðar dollara.

Ingvar segir ekki hægt að treysta á svo góðar viðtökur að þessu sinni, enda hafi markaðsaðstæður gjörbreyst á örfáum mánuðum. Á þeim tíma voru markaðsaðstæður fyrir slíka útgáfu hagkvæmar, fjárhæð, tímalengd og annað hentaði okkur, en í dag er erfiðari róður fyrir höndum og meiri óvissa um hvernig til tekst. Ef illa tekst til er óvíst að við förum af stað með útgáfuna. Þá myndum við bíða þangað til aðstæður eru betri.