Skiptastjóri Milestone, Grímur Sigurðsson, telur að lán Glitnis til Milestone hafi ekki verið „veitt á viðskiptalegum forsendum heldur tilkomin vegna hagsmuna Glitnis banka hf. sjálfs af því að rekstur Milestone ehf. virtist ganga vel“. Þrotabú Milestone hefur höfðað tíu riftunarmál gegn fyrri eigendum og stjórnendum félagsins. Viðskiptablaðið hefur hluta úr riftunarstefnunum undir höndum.

Í  sömu stefnu segir síðan að Glitnir hafi lánað Milestone „ítrekað og frá miðju ári 2007 var félagið nánast eingöngu rekið með lánum frá bankanum. Má segja að Glitnir banki hf. hafi verið eini bankinn í heiminum sem var reiðubúinn að lána Milestone ehf. Sést það af því að Askar Capital hf. hafi leitað að lánum fyrir Milestone ehf. víða um heim á tímabilinu maí til september 2007 en án árangurs [...] Það er óeðlilegt og ósannfærandi að félag með 80 milljarða króna eigið fé hafi eingöngu lánstraust hjá einni fjármálastofnun – og sé um leið einn af stærstu eigendum fjármálastofnunarinnar“.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.