Glitnir Securities AS og Pareto Securities  AS höfðu umsjón með lokuðu hlutabréfaútboði norska orkufyrirtækisins Noreco sem lauk síðastliðinn föstudag.

Umframeftirspurn var eftir bréfum í félaginu og nam hlutbréfaaukningin um 450 milljónum norskra króna eða um 6,5 milljörðum íslenskra króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar í Osló.

Noreco er norskt olíu og gasfyrirtæki sem framleiðir olíu á 7 svæðum í Norðursjó og er skráð í norsku kauphöllinni. Hlutabréfaútgáfan tengdist kaupum Noreco á olíufyrirtækinu Talisman Oil Denmark nýlega.

„Verðbréfamiðlarar Glitnis Securities höfðu umsjón með stærstum hluta áskriftanna og Noreco hefur lýst yfir mikilli ánægju með þátt Glitnis í útboðinu,“ segir Jan H. Solstad, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar hjá Glitni Securities og bætir því við að mikill áhugi hafi verið meðal fjárfesta á þátttöku í útboðinu.