Glitnir hefur sent frá sér tilkynningu það sem það er áréttað að fjárfestingar Sjóðs 9 voru og séu nú í fullu samræmi við lög og reglur sem gilda um sjóðinn og innan vikmarka þeirrar stefnu sem hann setur sér.

Mikil umræða hefur skapast um peningamarkaðssjóði í kjölfar þess að Glitnir banki ákvað að lágmarka tap sjóðfélaga í Sjóði 9 eftir miklar sviptingar á fjármálamarkaði.

Í tilkynningunni kemur fram að sjóðstjórar hafa heimildir til fjárfestinga innan fjárfestingarstefnu sem stjórn hefur markað.

„Aldrei er farið út fyrir þá stefnu sem útboðslýsing sjóðsins heimilar,“ segir í tilkynningunni og tekið er fram að Sjóður 9 sé  undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins eins og aðrir verðbréfa-og fjárfestingasjóðir og sjóðurinn sendi jafnframt inn mánaðarlegar skýrslur til Seðlabanka Íslands.

„Því er ekki að neita að þeir atburðir sem hófust í byrjun viku hafa haft tímabundin áhrif,“ segir í tilkynningunni.

„Til að vernda hagsmuni sjóðsfélaga keypti Glitnir banki skuldabréf Stoða út úr sjóðnum og lágmarkaði þannig tjón sjóðfélaga. Ávöxtun sjóðsins á síðastliðið eitt ár er 7,74% og síðastliðin 2 ár 11,1% á ársgrundvelli. Gengi Sjóðs 9 hefur hækkað um  23,9% síðustu tvö ár.“