Greiningardeild Glitnis hefur hækkað verðmat sitt í 5,86 krónur á hlut úr 5,3. Sex mánaða markgengi er 6,4 krónur á hlut. Við lok markaðar í gær var gengið 6,19, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

"Helstu ástæður fyrir hækkuðu verðmatsgengi eru m.a. fólgnar í því að nýbirt uppgjör félagsins var yfir væntingum okkar sem og að ávöxtunarkrafa hefur lækkað lítillega. Auk þess hefur gengi EUR/ISK hækkað frá síðasta verðmati, það hefur jákvæð áhrif þar sem hlutafé Alfesca er skráð í krónum," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin telur að það séu spennandi tímar framundan hjá Alfesca. "Félagið hefur tilkynnt um kaupviðræður við eigendur Oscar Mayer Ltd í Bretlandi. Það félag framleiðir og selur tilbúna rétti (e. ready meals) undir merkjum annarra (e. privat label) og er mikilvægur birgir fyrir Sainsburys og Morrisons verslanakeðjurnar á Bretlandi. Ytri vöxtur á þessu sviði myndi auka áhættudreifingu samstæðunnar og minnka árstíðarsveiflu, hvoru tveggja er mikilvægt fyrir Alfesca að okkar mati. Velta Oscar Mayer nam 181 milljón evra á síðasta reikningsári, aðrar fjárhagsupplýsingar liggja ekki fyrir."