Á heildina litið er uppgjör Kaupþings banka gott og yfir væntingum, segir greiningardeild Glitnis.

?Horfur í rekstri bankans eru góðar og er útlit fyrir að arðsemi eigin fjár á árinu 2006 verði á bilinu 25-30%. Við teljum að gott kauptækifæri sé í bréfum bankans fyrir langtímafjárfesta," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin segir óreglulegir liðir eða atburðir koma reglulega upp þegar uppgjör Kaupþings banka er annars vegar.

?Nefna má á öðrum ársfjórðungi óvenju mikla lækkun á gengi krónunnar, verðbólguskot á Íslandi, talsverða lækkun á hlutabréfamörkuðum, einskiptiskostnað af ýmsu tagi auk söluhagnaðar af hlutabréfum í VÍS (7,4 milljarðar króna)," segir greiningardeildin.

Uppgjörið

Hagnaður hluthafa Kaupþings banka nam 13 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi en greiningardeild Glitnis spáði 10,9 milljörðum króna.

Hreinar vaxtatekjur námu 14,4 milljörðum króna en spá greiningardeildarinnar var 12,7 milljörðum króna, sem er aukning um 37% frá fyrsta ársfjórðungi, ástæðan er mestmegnis vegna mikillar lækkunar á gengi krónunnar og verðbólgu á tímabilinu.

?Hreinar þóknanatekjur voru nokkuð hærri en spáð og hafa aldrei verið hærri á einum ársfjórðungi (9,2 milljarðar króna en spá 8,5 milljarðar króna.). Fyrirtækjaráðgjöfin kom á óvart með 2,5 milljarða króna hreinar þóknunartekjur en voru 2,0 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi," segir greiningardeildin.

Undirliggjandi vöxtur þóknanatekna er því sterkur og skýrist aukningin ekki aðeins af lækkun á gengi krónunnar, að sögn greiningardeildarinnar.

?Gengismunur (að teknu tilliti til söluhagnaðar af VÍS) var nokkuð hærri en spáð og munaði 1 milljarði króna. Hreinar rekstrartekjur voru 31 milljarður króna á öðrum ársfjórðungi en spá Greiningar var 27 milljarðar króna," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin segir rekstrarkostnað samsvarandi hærri vegna tengingar tekna við laun en auk þess kom 600 milljóna króna sérlegur launakostnaður vegna stofnunar Markaðsviðskipta í Danmörku og á Bretlandi auk Fyrirtækjaráðgjafar í Danmörku.

?Kostnaðarhlutfall var 48% á tímabilinu en spá okkar gerði ráð fyrir 45% hlutfalli. Virðisrýrnun var ívið minni en spáð eða 1,0 milljarði króna (spá 1,1 milljarður króna). Skatthlutfall var 17,1% en var 20% í spá," segir greiningardeildin.