Glitnir banki hf. hefur í dag selt alla hluti sína í Fjárfestingafélaginu Máttur hf., hvers stofnun var tilkynnt í fréttakerfi Kauphallarinnar 27. janúar 2006. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar.

Fjárhagsleg áhrif viðskiptanna á Glitni eru óveruleg segir í tilkynningu. Fjárfestingarfélagið Máttur var í eigu Sjóvár og Glitnis sem áttu 47,5% hvort félag auk þess sem Gunnlaugur M Sigmundsson framkvæmdastjóri keypti 5% í félaginu.

Greint var frá stofnun Máttar í upphafi árs og þar kom fram að stefna Máttar væri að auka verðmæti eigenda sinna með fjárfestingum í skráðum og óskráðum hlutabréfum, bæði í eigin verkefnum og í samstarfi við aðra fjárfesta, segir í tilkynningunni. Meðal eigna Máttar má nefna 11,1% hlut í Icelandair, 12,2% hlut í BNT og er leiðandi fjárfestir í Kcaj sem er breskt félag sem fjárfestir einkum í smásölurekstri þar í landi. Eigið fé Máttar var við stofnun ríflega 3,6 milljarðar og var þá greint frá því að eigendur félagsins hefðu skuldbundið sig til að auka eigið fé enn frekar.