Greiningadeild Glitnis segir í morgunkorni sínu í dag skuldatryggingaálag vera í takti við þróun á skuldatryggingaálagi almennt og skuldatryggingavísitölur hafi hækkað mikð þar sem af er ári.

„Þannig hefur ITRAXX Europe 5 ára vísitalan hækkað um 140% frá áramótum og ITRAXX Crossover vísitalan, sem mælir skuldatryggingaálag áhættumeiri fyrirtækja, hefur hækkað um ríflega 60%. Þróun kröfu á skuldabréf banka og fjármálafyrirtækja á eftirmarkaði hefur þróast með keimlíkum hætti. Það er því ljóst að íslenskir bankar eru langt í frá einir um að glíma við mótdrægan fjármögnunarmarkað,” segir í Morgunkorni Glitnis.

Þá segir bankinn aðstæður á mörkuðum óvenjulegar um þessar mundir og dregur í efa að rétt sé að nota þær aðferðir til að slá mati á greiðslufallsáhættu sem hafa legið til grundvallar tali um stórauknar líkur á greiðslufalli íslensku bankanna og annarra evrópskra fjármálafyrirtækja

„Þessar aðferðir, sem byggja á muninum á ávöxtunarkröfu á skuldabréf fyrirtækja annars vegar og áhættulausri ávöxtun hins vegar, að teknu tilliti til endurheimtuhlutfalls (e. recovery rate), gefa nokkuð glögga mynd af væntum líkum á gjaldþroti þegar fjármagnsmarkaðir starfa með eðlilegum hætti. Sú hefur hins vegar ekki verið raunin undanfarið hálft ár. Þótt ýmsir bankar, stórir sem smáir, hafi þannig lent í áföllum vegna beinna og óbeinna áhrifa undirmálslánakrísunnar í Bandaríkjunum hlýtur að teljast ólíklegt að eitt af hverjum tuttugu evrópskum fjármálafyrirtækjum lendi í greiðslufalli á næstu misserum, en það er niðurstaðan sem lesa má út úr skuldatryggingaálagi í Evrópu þessa dagana,” segir í Morgunkorninu.