Greiningardeild Glitnis reikna með að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti sína í þessari viku.

Seðlabankinn mun gefa út ársfjórðungsritið Peningamál á fimmtudaginn og telur greiningardeildin að samhliða því muni jafnframt verða tilkynnt um 0,50-0,75 prósenta hækkun stýrivaxta.

?Bankinn mun þar með vera kominn með stýrivexti sína upp í 12,75-13,0% en svo hátt hefur bankinn ekki farið með vexti sína í yfir áratug. Með aðgerð sinni bregst bankinn við vaxandi verðbólgu en án aðgerða reynist hún sennilega yfir 2,5% verðbólgumarkmiði bankans fram yfir næsta ár," segir greiningardeildin.

Nær verðbólgumarkmiði í lok næsta árs

Greiningardeildin telur að Seðlabankinn muni ná verðbólgumarkmiði sínu í lok næsta árs. ?Það tekur tíma fyrir aðgerðir bankans að koma fram að fullu í verðbólguþróuninni og því er ekki raunhæft að bankinn nái markmiði sínu fyrr, þrátt fyrir aukið aðhald."

Verðbólgan mun fara í um 9% á þessu ári, að mati greiningardeildarinnar.

?Þenslan er enn talsverð á innlendum markaði þó svo að kaupmáttur heimilanna hafi nokkuð rýrnað á síðustu mánuðum samhliða lækkun krónunnar og aukinni verðbólgu. Hækkun vaxta, ekki síst langtímavaxta, og skert aðgengi almennings að lánsfé leggst hins vegar á árar með minnkandi kaupmætti og dregur úr neyslu á næstunni. Við bætist samdráttur í fjárfestingum atvinnuveganna sem verður umtalsverður þegar líður að lokum yfirstandandi stóriðjuframkvæmda." segir greiningardeildin.

Hún segir að búast megi við samdrætti í neyslu og fjárfestingu þegar líða tekur á árið og enn frekar þegar kemur fram á næsta ár. ?Á næsta ári mun því draga hratt úr spennu í efnahagslífinu og verðbólgan hjaðnar," segir greiningardeildin.