Útlit er fyrir 0,6% hækkun vísitölu neysluverðs á milli júní og júlí, segir greiningardeild Glitnis.

?Óvissa spárinnar er þó meiri en að jafnaði þar sem þungir kraftar vinna í gagnstæðar áttir. Áhrif gengislækkunar krónunnar og spennu á vinnumarkaði skila sér áfram í verðlag en útsöluáhrif vega nú á móti," segir greiningardeildin.

Nú er ekki búist við jafn miklum útsöluáhrifum líkt og var í fyrra. Að auki hefur eldneytisverð hækkað í mánuðinum og reiknað er með hærra matvöruverði.

?Svo virðist sem íbúðamarkaður sé kólnandi en ljóst sýnist að íbúðaverð muni engu að síður mælast hærra en í fyrri mánuði. Enn er því bið í að sú kólnun skili sér í vísitölu neysluverðs," segir greiningardeildin.

Gangi spáin eftir mælist verðbólgan 8,6% og eykst úr 8% í júní. ?Verðbólga hefur aukist umtalsvert og er fjarri 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Um er að ræða tuttugasta og sjöunda mánuðinn í röð sem verðbólga reynist yfir markmiði bankans. Sennilega mun verðbólgan aukast áfram á næstunni og reiknum við með að hún nái hámarki í um 9% áður en hún byrjar að hjaðna. Reiknum við með að Seðlabankinn nái verðbólgumarkmiði sínu undir árslok 2007," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin segir að friður hafi verið tryggður á vinnumarkaði í bráð og segja má að það minnki líkurnar á víxlverkun launa og verðlags á næstu misserum.

?Flest bendir til þess að íbúðaverð muni lækka þegar horft er til næsta árs. Mikið framboð er framundan á íbúðamarkaði en hækkun vaxta og skertari aðgangur að lánum draga úr eftirspurn. Lækkun íbúðaverðs mun draga úr verðbólgu, bæði með beinum hætti þar sem íbúðaverð er stærsti einstaki þáttur vísitölu neysluverðs og með óbeinum hætti þar sem lækkandi íbúðaverð slær á tiltrú neytenda og kaupgleði," segir greiningardeildin.

Gengi krónu mun að öllum líkindum lækka frekar á næstunni en þó er búist við að gengið komi til baka þegar viðskiptahallinn fer að minnka og óvissa um lánshæfiseinkunn tekur að skýrast, að sögn greiningardeildarinnar.