Enn leggst flest á eitt við hækkun verðlags og útlit er fyrir 0,9% hækkun vísitölu neysluverðs á milli maí og júní, að sögn greiningardeildar Glitnis.

?Íbúðaverð hækkar enn af krafti þrátt fyrir vaxtahækkun og aukna verðbólgu. Einnig hækkar verð innfluttra vara áfram í kjölfar gengislækkunar krónunnar," segir greiningardeildin.

Aftur á móti hefur eldsneytisverð lækkað lítillega frá síðustu mælingu og hefur því áhrif til lækkunar.

Greiningardeildin reiknað með hækkun á matvöruverði á milli mánaða og reikna má með að þjónusta og ýmsar innlendar vörur hækki einnig, ?ekki síst í ljósi mikilla launahækkana að undanförnu."

Ef spáin gengur eftir mælist verðbólgan 7,8% og eykst úr 7,6%. Verðbólgan hefur aukist verulega og er meira en þrefalt verðbólgumarkmið Seðlabankans, að sögn greiningardeildar sem segir það vera 26. mánuðinn í röð sem verðbólga reynist umfram markmið bankans.

?Verðbólgan mun sennilega aukast áfram á næstunni og reiknum við með því að hún nái hámarki í byrjun næsta árs í ríflega 9%. Verðbólgan mun hins vegar hjaðna hratt á næsta ári að okkar mati og Seðlabankinn nær verðbólgumarkmiði sínu við árslok 2007," segir greiningardeildin.