Seðlabanki Íslands mun halda stýrivöxtum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunardegi þann 5. júlí næstkomandi og strangt aðhald verður áfram í peningastefnu, að því er kemur fram í nýrri gengis- og stýrivaxtaspá Glitnis.

Verðbólga hefur verið nokkuð yfir spá Seðlabankans og mun ný verðbólguspá sem bankinn gefur út samtímis vaxtaákvörðun mun tæplega gefa tilefni til vaxtalækkunar.

Eftir umtalsverðan samdrátt á fyrsta fjórðungi lítur allt út fyrir að einkaneyslan sé að taka hressilega við sér á öðrum fjórðungi, auk þess sem eignaverð og kaupmáttur ráðstöfunartekna er á uppleið. Þensla er ennþá til staðar á vinnumarkaði sem sýnir að spenna er ennþá töluverð í hagkerfinu.

Verðbólguhorfur eru slæmar og vilji forsvarsmanna Seðlabankans til vaxtalækkunar líklegast takmarkaður, að því er kemur fram í spá Glitnis. Greiningardeild bankans stendur við fyrri spár sínar þess efnis að fyrsta vaxtalækkunin verði í nóvember og býst við 0,5% lækkun.

Gert er ráð fyrir snarpri vaxtalækkun eftir það og að í lok árs 2008 verði stýrivextir komnir niður í 9,0%. Það er breyting frá fyrri spá Glitnis sem gerði ráð fyrir stýrivöxtum í 8,0% í lok ársins.

Breytt gengisspá

Í mánaðargamalli gengisspá sinni spáði Glitnir því að ákveðin hætta væri á því að svokallaðað yfirskot myndi eiga sér stað á haustmánuðum. Þá verður gengið veikara en nauðsynlegt er til að hagkerfið geti aðlagað sig ytri og innri aðstæðum, sem getur haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér.

Að sögn Ingólfs Bender, forstöðumanns greiningardeildar bankans, hafa forsendur breyst: "Ef að snörp gengisveiking mun eiga sér stað á þessum tíma mun Seðlabankinn bregðast við því með áframhaldandi háum vöxtum. Vænt viðbrögð Seðlabanka við hraðri veikingu eru því önnur í þessari spá en í þeirri síðustu."

Í nýrri gengisspá er gert ráð fyrir að gengi krónunnar verði 95 krónur í lok næsta árs og að dollarinn verði kominn í 70 krónur, og gert ráð fyrir að gengið muni veikjast um 13% yfir árið.

Hratt mun draga úr skammtímavaxtamun innan- og utanlands. Meðaltalsgengi krónunnar gagnvart evrunni á síðari helmingi þessa árs verði 82 krónur og 61 króna gagnvart dollaranum.

Nokkur óvissa um þróunina

Gengisaðlögunin er að gerast með mildari hætti en fyrri greiningar gerðu ráð fyrir. Allt bendir nú til þess að lending hagkerfisins eftir mikið þensluskeið síðustu ára verði nokkuð mýkri en lengi var talið. Ingólfur bendir þó þungir kraftar togist á innan hagkerfisins sem skapar óvissu um spána á tímabilinu.

Annars vegar séu viðskiptahallinn og ójafnvægi hagkerfisins að kalla á skarpa lækkun á krónunni á stuttum tíma, en hins vegar vaxtamunurinn við útlönd og væntingar til efnahagsmála sem halda krónunni sterkri.

Erlendir fjárfestar eru óútreiknanlegasti þátturinn, en gjalddagar á jöklabréfum geta haft áhrif á gengi krónunnar, þó svo að markaðurinn sé oftar en ekki búinn að gera ráð fyrir slíkum útborgunum. Taki fjárfestar óvænta stefnu geti gengisþróunin tekið óvænta stefnu.