Greiningardeild Glitnis spáir 8% hækkun á Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar frá ársbyrjun til ársloka og er því svigrúm til 10% hækkunar hlutabréfaverðs á seinnihluta ársins.

?Innan hópsins sem vann skýrsluna voru þó mismunandi væntingar um þróun hlutabréfaverðs eða frá -5% til +20% frá ársbyrjun til ársloka. Spá okkar frá í apríl hefur því lækkað talsvert þar sem við spáðum 20% hækkun innan ársins og spábilið var 15-30%," segir greiningardeild Glitnis.

Það eru mismunandi skoðanir á áhrifum utanaðkomandi áhrifaþátta. ?Ljóst er að vaxtastig er sögulega hátt og fer hækkandi. Af sömu ástæðu fæst mjög góð áhættulaus ávöxtun á skuldabréfamarkaði sem hefur letjandi áhrif á spurn eftir hlutabréfum," segir greiningardeildin.

Hún segir að það ríki svartsýni meðal stórs hluta fjárfesta á markaðnum eftir lækkun hlutabréfaverðs undanfarið. ?Þrátt fyrir að góð kauptækifæri séu til staðar fyrir fjárfesta sem horfa lengra fram á veginn, þá verður að teljast líklegra að fyrrnefndir þættir hamli hækkun hlutabréfaverðs til skemmri tíma litið."