Greiningardeild Glitnis spáir að vísitala neysluverðs lækki um 0,9% milli febrúar og mars. Gangi spáin eftir minnkar ársverðbólgan á milli mánaða úr 7,4% í 5,3%.

"Í síðustu verðbólguspá okkar gerðum við ráð fyrir nokkru minni lækkun í mars eða 0,7%. Við höfum einnig endurmetið næstu mánuði þar sem við gerum ráð fyrir minni verðbólgu en áður og þar með að það dragi hraðar úr verðbólgu en við höfum áður reiknað með. Þar vegur þyngst styrking krónunnar það sem af er ári. Endurskoðun á verðbólguhorfum ber sterklega merki þess hve mikið krónan hefur styrkst og við gerum ráð fyrir að verðbólga fari niður fyrir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans í júní og verði undir því nánast út árið," segir greiningardeildin.

Íslenska króna styrktist snögglega í morgun og rekja greiningaraðilar hækkunina til ákvörðunar matsfyrirtækisins Moodys Investors Service um að hækka lánshæfismat viðskiptabankanna þriggja í Aaa, sem er hæsta einkunn fyrirtækisins. Um klukkan ellefu í morgun hafði krónan styrkst um 1,15%.

Hagstofan áætlar að lækkun virðisaukaskatts og vörugjalda leiði til 1,9% lækkunar vísitölu neysluverðs. Glitnir gerir ráð fyrir að lækkun virðisaukaskatts komi að fullu fram í mars en hún er áætluð 1,7%. Lækkun vegna vörugjalda, sem áætluð er 0,2%, mun að greiningardeildarinnar mati dreifast á mars og aprílmánuð en áður gerði Glitnir ráð fyrir að hún kæmi að mestu fram í apríl.

Fasteignamarkaður hefur verið líflegur á fyrstu vikum ársins og kom það fram í kröftugri hækkun markaðsverðs húsnæðis í síðasta mánuði, segir Glitnir. "Við gerum ráð fyrir að markaðsverð húsnæðis hækki einnig í þessum mánuði en þó minna en í janúar. Einnig gerum við ráð fyrir að vaxtaþáttur í útreikningum Hagstofunnar auki kostnað við eigið húsnæði eins og hann hefur gert undanfarna mánuði."

Bankinn gerir þó ráð fyrir að verðbólga aukist aftur á næsta ári. "Við gerum ráð fyrir að verðbólga verði 2,7% yfir þetta ár en 3,8% yfir árið 2008. Minni verðbólga á þessu ári og meiri verðbólga á næsta ári endurspeglar spá okkar um gengisþróun en við gerum ráð fyrir að gengi krónunnar lækki og að gengisvísitalan verði komin í 130 á seinni hluta þessa árs," segir greiningardeildin.

"Dragi hratt úr spennunni sem er í hagkerfinu nú er líklegt að verðbólga á seinni hluta þessa árs og á fyrri hluta næsta árs verði minni en hér er spáð. Haldist spennan hins vegar mikil langt fram eftir ári má gera ráð fyrir að verðbólgan verði meiri en hér er spáð. Þróun gengis krónunnar næstu mánuði er þó stærsti óvissuþátturinn í spá okkar."