Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,3% á milli janúar og febrúar, samkvæmt tölum frá Fasteignamati ríkisins, og greiningardeild Glitnis spáir því að fasteignamarkaður verði "nokkuð líflegur næstu mánuði í ljósi bætts aðgengis að lánsfjármagni bæði hjá Íbúðalánasjóði og ekki síður hjá viðskiptabönkunum."

"Undanfarnar vikur virðist sem samkeppnin á lánamakaði hafi harðnað aftur sem kemur fram í bættu aðgengi að lánsfé nú þótt vextir séu enn háir. Auknar ráðstöfunartekjur heimilanna, vegna hækkunar launa, lækkunar tekjuskatts um áramót og lækkunar virðisaukaskatts og vörugjalda á matvæli í mars, eru einnig lóð í sömu vogarskál," segir greiningardeildin.

"Þegar líður á árið gerum við hins vegar ráð fyrir mun hægari aukningu ráðstöfunartekna og að almennt muni hægja á hjólum efnahagslífsins. Það ásamt miklu nýju framboði íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu mun að öllum líkindum valda því að um hægist á fasteignamarkaði og gerum við ráð fyrir nokkuð stöðugu íbúðaverði næstu misserin."

Verð á sérbýli lækkaði um 2,3% en sú lækkun var vegin upp og aðeins rúmlega það af 1,1% verðhækkun fjölbýlis. Síðastliðna þrjá mánuði hefur íbúðaverð hækkað um 1,9%, 1% undanfarna sex mánuði og 5% undanfarna tólf mánuði.

Um 7% færri kaupsamningum var þinglýst í febrúar í ár en á sama tíma í fyrra og segir Glinir að þó að umsvif á þennan mælikvarða minnki milli ára eru umsvif þó töluverð á fasteignamarkaði. Verulega dró úr umsvifum á fasteignamarkaði á seinni hluta nýliðins árs, en frá síðustu vikum 2006 hefur markaðurinn tekið vel við sér og velta á markaði mæld sem tólf vikna meðalfjöldi þinglýstra kaupsamninga hefur hækkað hratt aftur.