Greining Glitnis telur að vísitala neysluverðs í júlímánuði muni dragast saman um 0,2%. Tólf mánaða verðbólga verði í kjölfarið 3,3% en er núna 4%. Samkvæmt spá Glitnis verður verðbólga þessa árs að meðaltali 3,5% og 4,8% á næsta ári. Mikil hækkun milli ára skýrist af gengislækkun sem greining Glitnis býst við á næsta ári. Glitnir býst við að verðbólga haldi áfram að dragast saman eftir sumri og lækki um 0,1% í ágústmánuði. Tólf mánaða verðbólga stendur þá í 3% en fer svo hækkandi eftir haustinu. Glitnir segir sumarútsölurnar muna mestu um minnkandi verðbólgu í sumar en spáin gerir ráð fyrir að fatnaður og skór lækki um 9% vegna útsöluáhrifa. Á móti vegur hinsvegar hækkandi húsnæðisverð og verðhækkanir á hótelum, veitingastöðum og almennum matvælum út úr búð.


Glitnir telur að verðbólgan toppi í 5% á næsta ári og að lækkun krónunnar verði helsti áhrifavaldurinn í þeirri þróun. Gengisvísitalan fer samkvæmt spám greiningardeildarinnar allt upp í 130 stig næsta haust áður en hún byrjar að styrkjast á nýjan leik. Greining Glitnis setur þó á þann fyrirvara í spá sinni að verðbólgukúfurinn geri vart við sig fyrr ef að krónan mun lækka fyrr en reiknað er með samkvæmt spánni.