Talsmaður Glitnis staðfesti í samtali við Viðskiptablaðið að bankinn hafi náð samningum við sænska lággjaldaflugfélagið FlyMe. Hann sagði þó ekki um beina fjármögnun að ræða, heldur feli samningurinn í sér ráðgjöf.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að fyrirtækið hafi átt viðræður við bankann um að taka þátt í að fjármagna hugsanlegar yfirtökur.

Björn Olegaard, stjórnarformaður FlyMe, segir fyrirtækið hafa áhuga á að taka þátt í samþjöppun á evrópska flugmarkaðnum og hefur fyrirtækið útbúið lista með nöfnum á 4-6 félögum sem mögulegt væri að taka yfir.

FlyMe er að miklu leyti í eigu eignarhaldsfélagsins Fons. Fons, sem er stjórnað af Pálma Haraldssyni, á um 20% í FlyMe. Félagið hefur samþykkt að kaupa Lithuanian Airlines á næsta ári, en áreiðanleikakönnun hefur hins vegar ekki verið lokið.

Olegaard sagði að FlyMe mun vinna mest með norska og enska armi Glitnis í framtíðinni.