Glitnir Property Holding hefur sameinast Giltnir Property Group, áður UNION Gruppen, og sænska fasteignaráðgjafarfyrirtækinu Leimdörfer AB, segir í tilkynningu frá bankanum. Gltinir segir að með sameiningunni verði til leiðandi ráðgjafarfyrirtæki í fasteignaviðskiptum á Norðurlöndum.

Hið nýja félag er með starfsstöðvar í Ósló, Stokkhólmi og Helsinki og starfsmenn eru um 70 talsins. Glitnir Property Holding AS er í eigu Glitnis (70%) auk fyrri eigenda að UNION Gruppen og fyrirtækjunum Union Eiendomskapital og Leimdörfer (samtals 30%).

Glitnir segir sameininguna lið í þeirri stefnu að verða leiðandi í fasteignaráðgjöf á norrænum markaði. Samanlögð heildarvelta í fasteignaviðskiptum Glitnir Property Group og Leimdörfer árið 2006 var um það bil fimm milljarðar evra eða um 440 milljarðar króna.

Stofnun Glitnir Property Holding varð til í kjölfar þess að Glitnir Property Holding AS í Noregi, móðurfélag Glitnir Property Group gerði samkomulag um kaup á 91% hlutafjár í sænska félaginu Leimdörfer Holding AB. Greitt er fyrir Leimdörfer annars vegar með reiðufé og hins vegar með útgáfu nýrra hluta í Glitnir Property Holding AS. Kaupverðið hefur óveruleg áhrif á fjárhagsstöðu Glitnis banka hf. Peter Leimdörfer verður framkvæmdastjóri hins nýja félags og Frank Ove Reite stjórnarformaður þess.