Lárus Welding, forstjóri Glitnis, undirritaði í vikunni þriggja ára samstarfssamning við Reykjavíkurmaraþonið. Hlaupið er 25 ára í ár en Glitnir hefur verið bakhjarl Reykjavíkurmaraþonsins síðan árið 2005.

Í ár endurtekur Glitnir leikinn frá í fyrra og heitir á viðskiptavini sína sem hlaupa í Reykjavíkurmaraþoni. Glitnir greiðir 300 krónur fyrir hvern kílómetra sem viðskiptavinur hleypur og 1.000 krónur fyrir hvern kílómetra sem starfsmaður Glitnis hleypur, en áheitaféð rennur til góðgerðafélags að vali viðkomandi hlaupara.

„Við hjá Glitni erum afar ánægð að vera einskonar kjölfestufjárfestir í þessu frábæra hlaupi og fjölskylduviðburði. Reykjavíkurmaraþon Glitnis skipar mjög mikilvægan sess meðal starfsmanna bankans og hlaupið er einnig lykilþáttur í lýðheilsumálum á Íslandi. Ég er sannfærður um að hinn mikli áhugi á hlaupinu hefur leitt til almennrar vitundarvakningar um mikilvægi hreyfingar og heilsueflingar meðal þjóðarinnar.

Á síðasta ári hljóp ég sjálfur 10 km. og þar sem ég er varfærinn bankamaður hef ég ákveðið að fikra mig upp og hlaupa hálft maraþon í ár.  Ég hvet alla starfsmenn Glitnis til þess að taka þátt í hlaupinu, ef ekki sjálfir þá með því að heita á vinnufélaga sína. Þá hvet stjórnendur allra fyrirtækja á Íslandi til þess að láta gott af sér leiða og heita á starfsmenn sína að hlaupa til góðs. Þannig sigra allir þann 23. ágúst,“ sagði Lárus Welding, forstjóri Glitnis.