Glitnir banki hefur verið tilnefndur til Sjálfbærniverðlauna Financial Times (e. Sustainable Awards) 2007 í flokknum Sjálfbæri samningur ársins (e. Sustainable Deal of the Year) fyrir þátttöku bankans í jarðhitaveituverkefni í borginni Xian Yang í Kína. Verðlaunin eru veitt í fimm flokkum: Sjálfbæri banki ársins, Sjálfbæri banki ársins á nýmarkaði, Sjálfbæru bankastarfsmenn ársins, Sjálfbæri samningur ársins og Árangur í kolefnisfjármálum. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Framlag Glitnis, hitaveita til upphitunar í borginni Xian Yang í Kína, var eitt af 30 framlögum í flokki Sjálfbærs samnings ársins. Fimm framlög komust á úrtakslista fyrir þennan flokk verðlaunanna og munu verðlaunahafarnir ásamt öðrum í úrtakinu verða kynntir við hátíðlega athöfn í Lundúnum í júní þar sem sérfræðingar úr bankageiranum og af sviði sjálfbærrar þróunar verða viðstaddir.

Á árinu 2006 lék Glitnir lykilhlutverk í þróun hitaveitukerfis fyrir borgina Xian Yang í Kína. Verkefnið var hið fyrsta á vegum hins nýstofnaða Shaanxi Green Energy sem er sameiginlegt fyrirtæki Enex-China (Enex, Orkuveitu Reykjavíkur og Glitnis banka) og Shaanxi CGCOC Energy Development Construction LTD.

Yfir 100 fjármálastofnanir frá 51 landi sendu tillögu til FT verðlaunanna 2007 sem rekin eru í samvinnu við Alþjóðalánastofnunina (IFC). Fjöldi framlaga undirstrikar forystu verðlaunanna meðal alþjóðlegra verðlauna fyrir bestu starfsvenjur í bankastarfsemi sem hefur sjálfbærni samkvæmt staðli Sameinuðu þjóðanna (e. Triple Bottom Line Banking) að leiðarljósi.

Alls var 151 tillögu skilað í ár og er það yfir 50 prósenta aukning frá þeim 98 tillögum sem skilað var til upphafsverðlaunanna árið 2006. Fjöldi banka sem sótti um jókst um meira en 100 prósent og var framlögum skilað frá 104 bankastofnunum samanborið við 48 banka og 28 lönd í fyrra.

Financial Times og IFC, einkageiraarmur Alþjóðabankastofnananna, stofnuðu til verðlaunanna til að veita viðurkenningu bönkum sem hafa sýnt frumkvæði og nýbreytni við að fella félags- og umhverfismarkmið saman við starfsemi sína. Consultancy Sustainable Finance Ltd er tæknilegur ráðgjafi verðlaunanna.