HitecVision mun leggja norska olíu- og gasvinnslufyrirtækinu Spring Energy til 120 milljónir dala, jafngildi tæplega níu milljarða íslenskra króna, í hlutafé en Glitnir Securities í Noregi sá alfarið um fjárhagslega ráðgjöf vegna samningsins. Þetta er fyrsta fyrsta fjármögnunarverkefnið innan norska olíugeirans sem Glitnir Securities kemur að.

Karl Otto Eidem, forstjóri Glitnis Securities, segir í samtali við Viðskiptablaðið að þetta sé til marks um að hægt sé að afla fjár til nýrra og vænlegra verkefna þrátt fyrir lausafjárkreppuna og það skipti Glitni miklu máli að hafa tekist að landa samningunum, enda sé þetta fyrsta skref Glitnis inn í olíugeirann.

Að því hafi fyrirtækið lengi unnið og það sé með fleiri verkefni í vinnslu á því sviði sem greint verði frá innan tíðar. Þetta sé spennandi markaður enda hafi verið tekin ákvörðun um að veita fleiri smærri aðilum leyfi til að vinna olíu í Noregi, sem aftur bjóði upp á ný sóknartækifæri fyrir Glitni.

Glitnir Securities í Noregi hefur vaxið hratt á undanförnum misserum og náð að auka verulega markaðshlutdeild sína. Í mars var fyrirtækið með 7,3% af heildarveltunni í kauphöllinni í Ósló og var þannig orðið annað stærsta verðbréfafyrirtækið í Noregi.