Forsvarsmenn Glitnis hafa reynt að róa viðskiptavini bankans vegna fjárhagsvandræða hans og kaupa íslenska ríkisins á 75% hlut í bankanum á 600 milljónir evra.

Þeir hafa m.a. gefið út yfirlýsingar til viðskiptavina bankans í Noregi.

Morten Bjørnsen, framkvæmdastjóri Glitnir Bank ASA í Noregi, segir það styrkja bankann að hann skuli hafa fengið íslenska ríkið til liðs við sig.

„Það tryggir bankanum nauðsynlegt fjármagn á tímum mikilla óróleika í alþjóðlegri fjármálastarfsemi. Það tryggir okkar viðskiptavini og veitir öryggi inn í framtíðina.“

Bjørnsen reynir að draga úr tengslunum við Ísland og segir að Glitnir í Noregi sé að öllu leyti rekinn sem norskur banki sem eigi sér 50 ára í sögu i gegnum BNbank í Þrándheimi og KredittBanken í Álasundi. Þá banka keypti Glitnir árið 2004.

Þá eru viðskiptavinir bankans nú hvattir til að leggja fé inn á sparireikning á 7% vöxtum í banka sem sé betur tryggður en flestir aðrir með tvöfaldri ríkisábyrgð.

Lárus Welding forstjóri Glitnis segir stjórn og forsvarsmenn Glitnis hafi unnið baki brotnu við að tryggja fjárfestingar bankans á þeim óróleikatímum sem verið hafi á fjármálamarkaði síðustu mánuði. Ástandið hafi því miður versnað mjög á undanförnum dögum.

„Að fá ríkið inn sem eiganda styrkir mjög eiginfjárstöðu bankans og tekur af allan vafa um fjárhagslegan styrk bankans.“

Lárus segir að menn hafi horft upp á versnandi stöðu í fjármálageiranum í öllum löndunum í kring sem endurspegli stöðuna á alþjóðamarkaði. Viðskiptavinir Glitnis eigi ekki að skaðast af þessu og Glitnir einbeiti sér að því að veita þeim góða þjónustu.

„Ég vil líka meina að kaupin endurspegli sterka trú ríkisins á Glitni og að þau séu mikilvægur þáttur í að tryggja fjárhagslegan stöðugleika í landinu.“

Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis tekur í svipaðan streng í yfirlýsingu til norskra viðskiptavina bankans. Hann segist hafa lagt mikið á sig við að styrkja stöðu bankans. Segist hann þó jafnframt leiður yfir að það hafi ekki tekist á þann hátt sem lagt var upp með.

„Þessi lausn tryggir framtíð bankans, viðskiptavina og hagsmuni sparifjáreigenda. Það er mjög mikilvægt í mínum huga. Okkar starfsfólk hefur unnið frábært starf við mjög erfiðar aðstæður.“