Í tilkynningu frá Glitni kemur fram að umboðsmaður skuldara hafi verið starfandi hjá bankanum frá árinu 1995.

„Til umboðsmanns hafa lántakendur getað áfrýjað málum sínum ef þeir hafa ekki talið sig hafa fengið viðunandi lausn í samskiptum sínum við bankann,“ segir í tilkynningunni.

„Við þær aðstæður sem eru í dag og í framhaldi af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar mun Glitnir efla þessa starfsemi enn frekar til að koma til móts við þá einstaklinga og fyrirtæki sem telja sig þurfa að fá endurskoðun á sínum úrlausnarefnum.“

Í tilkynningunni segir að reynslan af þessu starfi umboðsmanns skuldara hafi verið mjög góð og þannig hafi viðskiptavinir Glitnis „almennt verið ánægðir með þá þjónustu og úrlausn mála sem þeir hafa fengið,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að hingað hefur umboðsmaður skuldara aðallega sinnt málefnum einstaklinga, en hér eftir mun hann einnig fjalla um málefni fyrirtækja.