Stjórn Glitnis [ GLB ] hefur tekið ákvörðun um skuldabréfaútboð og mun leita samþykkis hluthafa á væntanlegum aðalfundi.

Skuldabréfin verða víkjandi og teljast til eiginfjárþáttar A í reikningum félagsins, að því er segir í tilkynningu bankans til Kauphallarinnar. Heildarfjárhæð útgáfunnar verður allt að fimmtán milljarðar króna. Útgáfa skuldabréfanna og heimild  til hækkunar hlutafjár er háð samþykki hluthafafundar. Hluthafafundur verður haldinn eftir viku, miðvikudaginn 19. mars.

Í fréttatilkynningu Glitnis er haft eftir Alexander K. Guðmundssyni framkvæmdastjóra fjármálasviðs bankans að útgáfan sé góður kostur fyrir fjárfesta um þessar mundir. „Bréfin eru höfuðstólstryggð, gefa fasta verðtryggða vexti í fimm ár og breytast í hlutabréf að fimm árum liðnum. Fjárfestar njóta þar með góðs af jákvæðri verðþróun á tímabilinu. Útgáfan styrkir eiginfjárhlutfall Glitnis verulega og er ein fjölmargra fjármögnunarleiða bankans,“ segir Alexander.

Útgáfa skuldabréfanna telst til eiginfjárþáttar A og styrkir þannig eiginfjárhlutfall Glitnis umtalsvert, að því er segir í tilkynningunni. Skuldabréfin breytast að fimm árum liðnum í hlutabréf í Glitni á fyrirfram ákveðnu gengi, í samræmi við nánari ákvæði skuldabréfanna.

Skuldabréfin verða seld í lokuðu útboði til fagfjárfesta á tímabilinu 12.-17. mars 2008. Áætlað er að gefa þau út fyrir mánaðarlok og að því loknu verður sótt um skráningu þeirra í Kauphöllina.