„Glitnir Sjóðir hf. greiða út allar eignir úr Sjóði 9 - peningamarkaðsbréf í dag, fimmtudag.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Glitni sem barst rétt í þessu.

Í tilkynningunni segir að fjármunirnir verði lagðir inn á sparnaðarreikninga í nafni hvers sjóðfélaga í hlutfalli við eign þeirra í sjóðnum.

Útgreiðsluhlutfall sjóðsins er 85,12% sem er allt laust fé sjóðsins ásamt því endurgjaldi sem sjóðurinn fékk fyrir verðbréfasafn sitt. Upphæðina sem sjóðfélagar fá verður hægt að nálgast inn á innlánsreikningum á morgun, föstudag.

„Starfsmenn og stjórn sjóðsins hafa á síðustu vikum lagt höfuðáherslu á að koma verðbréfasafni sjóðsins í verð til að geta greitt út inneign sjóðfélaga og lágmarka þannig tap þeirra,“ segir í tilkynningunni.

Peningamarkaðssjóðir bankanna hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu og þeir hafa verið lokaðir til að vernda hagsmuni sjóðsfélaga.

Sjóður 9 er eini innlendi sjóðurinn hjá Glitni en þrír sjóðir eru í erlendri mynt og það er verið að vinna í því að opna þá á næstu dögum. Samtals eiga um 18.000 manns hagsmuna að gæta vegna sjóða Glitnis.