Hugsanlegt er að bæði kröfuhafar Glitnis og fyrrverandi starfsmenn bankans kunni að eiga skaðabótakröfu á hendur slitastjórn Glitnis eftir Hæstaréttardóm í máli Lárusar Welding, Jóns Sigurðssonar og Þorsteins M. Jónssonar gegn Tryggingamiðstöðinni. Sjö manna Hæstaréttur kvað upp dóminn á fimmtudag í síðustu viku.

Eins og VB.is hefur greint frá snerist málið um stjórnendatryggingu sem Glitnir hafði keypt af TM fyrir tímabilið maí 2008 til maí 2009. Þegar tryggingin var keypt var markmiðið að hún næði yfir allar þær kröfur sem voru gerðar á því tímabili jafnvel þótt atvikið sem myndi leiða til kröfunnar kynni að hafa komið upp miklu fyrr.

Tryggingin ekki endurnýjuð
Tryggingin sem Glitnir keypti af TM og var með gildistíma fram í maí 2009 var ekki endurnýjuð heldur keypti Glitnir tryggingu af öðrum erlendum vátryggjanda. Sú trygging gildir aftur á móti einungis frá og með 7. október 2008, það er tekur einungis til atvika sem kunna að koma upp í starfsemi skilanefndar og síðar slitastjórnar Glitnis. Fyrrum stjórnendur Glitnis geta af þeim sökum engan rétt sótt í þá tryggingu vegna starfa sinna fram að falli bankans.

Í skilmálum tryggingarinnar sem Glitnir keypti af TM var ákvæði um sex ára tilkynningarfrest til handa fyrrum stjórnendum. Forsenda þess að til þess réttar stofnaðist var að tryggingin hefði ekki verið endurnýjuð eða að Glitnir hefði keypt lengri tilkynningarfrest eða nýja tryggingu fyrir stjórnendur.  Með dómi Hæstaréttar frá 14. febrúar 2013, sem slitastjórn Glitnis banka hf. höfðaði á hendur TM, var komist að þeirri niðurstöðu að slitastjórnin hefði haldið þannig á málum gagnvart TM að bankinn hafi hvorki átt kröfu til endurnýjunar tryggingarinnar né kaupa á lengri tilkynningarfresti. Við þær kringumstæður töldu fyrrum stjórnendur bankans að stofnast hefði til áðurgreinds 6 ára tilkynningarfrests. Spurningin sem stóð eftir var aftur á móti hvort þessi nýja trygging, sem Glitnir keypti af erlenda vátryggingarfélaginu, teldist ónýta rétt stjórnendanna á þessum sex ára tilkynningafresti. Hörður Felix Harðarson, lögmaður þeirra Lárusar, Þorsteins og Jóns Sigurðssonar taldi að þessi tilkynningarfrestur væri enn í gildi.

Lárus Welding
Lárus Welding
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)

Fallist var á málatilbúnað Harðar þegar dæmt var í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hæstiréttur komst hins vegar að öndverðri niðurstöðu. Það er að þegar Glitnir samdi við nýtt tryggingafélag hafi tilkynningafrestur í skilmálum TM tryggingarinnar runnið úr gildi. Var þar ekki talið neinu skipta þótt nýja tryggingin tryggði eingöngu hagsmuni slitastjórnar og annarra stjórnenda bankans eftir 7. október 2008 en kæmi fyrri stjórnendum ekki að neinum notum.

Í samtali við Viðskiptablaðið bendir Hörður Felix á að þessi niðurstaða þýði að enginn fyrrverandi stjórnandi Glitnis geti sótt bætur í þessa tryggingu, hvorki vegna kostnaðar af málaferlum né vegna bótakrafna sem kynni að vera fallist á. Starfsmenn sem hafi talið að þeir væru tryggðir í starfi hafi ekki verið það þegar á reyndi. „Þetta þýðir líka að með því að standa ekki rétt að málum gagnvart TM og með því að taka aðra tryggingu sem dekkar ekkert af fyrra tímabili, þá er slitastjórn Glitnis búin að gera að engu möguleika búsins á að sækja bætur í trygginguna,“ segir Hörður Felix.

Slitastjórnin hugsanlega skaðabótaskyld
Aðspurður hvort nú kunni slitastjórn Glitnis að vera skaðabótaskyld, annars vegar gagnvart fyrrverandi starfsmönnum Glitnis eða gagnvart kröfuhöfunum, segir Hörður Felix mjög eðlilegt að þeirrar spurningar sé spurt. „Slitastjórnin hafði það alveg í hendi sér að tryggja að þessum kröfugerðarrétti yrði viðhaldið. Hvort það geti leitt til þess að einstaklingarnir öðlist bótarétt eða kröfuhafarnir sjálfir eru góðar og gildar spurningar. Ég treysti mér ekki til að svara því án frekari skoðunar en það er mjög eðlilegt að þær spurningar vakni.

Hörður Felix bendir jafnframt á að flest þau mál sem hafi verið höfðuð á hendur fyrrverandi stjórnendum Glitnis séu mál sem slitastjórnin höfðar sjálf. „Hún er annars vegar að höfða mál sem veldur kostnaði hjá einstaklingunum, svo tugum milljóna skiptir í sumum tilfellum og gerir jafnframt kröfu um að þessir einstaklingar borgi einhverja milljarða í bætur. En hún eyðileggur svo á sama tíma möguleika þessara manna til þess að sækja réttinn sem þeir töldu sig eiga á grundvelli  tryggingarinnar. Ef eitthvert þessara mál vinnst nú þá tel ég ljóst að ekkert mun koma út úr því sem máli skiptir. Það hrekkur ekki einu sinni fyrir kostnaði. Ég held að það gefi auga leið að enginn þessara fyrrum starfsmanna bankans er borgunarmaður fyrir þessum upphæðum,“ segir Hörður Felix.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .