Ákveðið hefur verið að Nýi Glitnir taki upp nafnið Íslandsbanki hinn 20. febrúar næstkomandi.

Haft er eftir Birnu Einarsdóttur bankastjóra í tilkynningu að nafnið Glitnir hafi beðið hnekki.

„Með nafnabreytingunni er þó ekki verið að setja nýjar umbúðir utan um gamla starfsemi, heldur verið að leggja áherslu á að bankinn er í dag fyrst og fremst íslenskur banki," er enn fremur haft eftir Birnu í tilkynningunni.

Þar segir einnig að kostnaði vegna nafnabreytingarinnar verði haldið í lágmarki.

Breytingaferlið, sem mun eiga sér stað á næstunni, var kynnt starfsmönnum bankans í dag en samhliða nafnbreytingunni voru kynntar áherslubreytingar í starfsemi bankans.

„Starfsfólk bankans gerir sér fulla grein fyrir því að nafnið Glitnir hefur beðið hnekki í því aftakaveðri sem gengið hefur yfir íslenskt fjármálalíf undanfarna tvo mánuði,“ segir Birna Einarsdóttir bankastjóri í tilkynningunni.