Glitnir, sem greindi frá kaupum á sænska verðbréfafyrirtækinu Fischer Partners í dag, mun taka yfir skuldir að virði 45 milljónir sænskra króna (450 milljónir íslenskra króna), segir seljandinn Invik & Co.

Heildarkaupverðið er því 425 milljónir sænskra króna (4,25 milljarðar króna), en í tilkynningu frá Glitni segir að kaupverðið sé 380 milljónir sænskra króna. Hins vegar bendir talsmaður Glitnis á að ekki sé óeðlilegt að kaupandi taki yfir slíkar skuldir, sem eru lán frá móðurfélaginu, og að ekki sé hægt að segja að verið sé að greiða hærra verð fyrir fyrirtækið.

Glitnir segir Fischer Partner eitt af leiðandi verðbréfafyrirtækjum í Skandinavíu og var markaðshludeild félagsins utan Íslands 4,4% á norræna verðbréfamarkaðnum á fyrsta ársfjórðungi 2006.

Samanlögð markaðshlutdeild Fischer Partners og Glitnir Securities á fyrsta ársfjórðungi var 5,7% í Noregi. Fischer Partners er aðili að kauphöllunum í Stokkhólmi, Helsinki, Kaupmannahöfn og Ósló auk Riga, Tallin, Vilníus, Varsjá og Eurex.

Yfirtakan er háð samþykki bæði sænska og íslenska fjármálaeftirlitsins og er gert ráð fyrir að kaupunum verði lokið á þriðja ársfjórðungi.