„Við horfum björtum augum til nýs árs, Glitnis bíða mörg spennandi tækifæri til frekari þróunar og vaxtar,“ segir Vala Pálsdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla Glitnis, í samtali við Viðskiptablaðið. Markaðsumhverfi Glitnis á nýju ári ræðst þó að nokkru leyti af þróun alþjóðlegra lánsfjármarkaða. „Stærsta verkefni hins alþjóðlega markaðar þessa árs er að leysa úr lausafjárvandanum  sem hefur sett svip sinn á síðustu mánuði. Janúar og febrúar munu vonandi varpa einhverju ljósi á það,“ segir Vala enn fremur.

Glitnir ætlar að efla stöðu  sína á Norðurlöndunum  enn frekar, að hennar sögn. Sérstaklega á sviði fyrirtækjalána, fjárfestingabankastarfssemi og markaðsviðskiptum. Jafnframt horfir bankinn til frekari tækifæra í markaðssyllum sínum: Sjávarútvegur og vistvæn orka.

„Það má segja að almennt hafi hægst á útlánastarfsemi banka í heiminum í kjölfar lausafjárvanda á síðari hluta ársins 2007  sá vandi hefur þó haft mjög takmörkuð áhrif á þessi svið,“ segir Vala. „Það er mikil eftirspurn eftir fiski, þó það hægist á hjólum efnahagslífsins. Þá er mikill áhugi fyrir vistvænni orku og mun hann einungis fara vaxandi,“ segir hún.

Vala sér tækifæri til vaxtar hjá þeim einingum sem Glitnir hefur þegar keypt, auk þess sem bankinn  sé  að ljúka samþættingarferli í Noregi, þar horfum við til aukinna verkefna á fyrirtækjasviði.

Aðspurð hvernig hægt sé að efla markaðsviðskipti Glitnis á Norðurlöndunum enn frekar, þegar kunni að hægjast á markaðnum á þessu ári, segir hún að þó búast megi við eitthvað rólegri hlutabréfamarkaði en árið 2007 sjáum við ekki fyrir neinar breytingar á gjaldeyrismarkaði og þá kunna að skapast tækifæri á skuldabréfamarkaði.   Einnig horfir bankinn til þess að auka vöruframboðið og nefnir afleiður sem dæmi um möguleika.

Vala telur að almennt muni fyrirtæki  hagræða í rekstri sínum árið 2008, við höfum séð mikið hagvaxtarskeið á síðustu misserum og fyrirtæki hafa vaxið hratt. Við munum jafnvel sjá sameiningar fyrirtækja .