Mál embættis sérstaks saksóknara gegn fjórum fyrrverandi starfsmönnum Glitnis verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í september. Embættið gaf út ákæru á hendur mönnunum fjórum fyrir að verða hálfum mánuði vegna umboðssvika, markaðsmisnotkunar og brota á lögum um ársreikninga. Mennirnir eru verðbréfamiðlarinn Elmar Svavarsson, Jóhannes Baldursson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá Glitni, Magnús Arnar Arngrímsson, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, og Birkir Kristinsson, sem var yfir einkabankaþjónustu Glitnis.

Þingfesting málsins er á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur 4. september næstkomandi.

Mennirnir eru ákærðir fyrir að hafa lánað félagi Birkis, BK-44, 3,8 milljarða króna til kaupa á hlutabréfum Glitnis árið 2007. Fjórmenningarnir voru m.a. ákærðir fyrir veitingu lánins, fyrir munnlegan samning um skaðleysi félags Birkis og samkomulag um að kaupa hlutabréfin aftur á gamla genginu óháð markaðsvirði. Fram kom í umfjöllun Fréttablaðsins af málinu í síðustu viku að Birkir hafi hagnast um 86 milljónir króna af viðskiptunum. Þá var Birkir ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikunum en til vara fyrir hylmingu og peningaþvætti með því að hafa lagt á ráðin um fléttuna. Honum hafi átt að vera ljóst að viðskiptin væru óeðlileg og brytu í bága við reglur bankans.