Global Finance, alþjóðlegt tímarit um fjármál, valdi Glitni [ GLB ]sem besta banka á Íslandi  árið 2007. Verðlaunin voru afhent í tengslum við ársfundi Alþjóðabankans og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins í National Press Club í Washington síðast liðinn mánudag.

Global Finance sem er með um 50,000 áskrifendur og yfir 250,000 lesendur í yfir 158 löndum verðlaunaði að þessu sinni sérstaklega þá banka sem „sinntu þörfum viðskiptavina sinna af kostgæfni, náðu öfundsverðum árangri um leið og þeir lögðu grunn að framtíðarárangri.“

Árleg könnun blaðsins tekur bæði til mælanlegra og huglægra þátta. Meðal atriða sem lagt var mat á voru eignir, vöxtur eiginfjár, hagnaður, landfræðileg útbreiðsla, ný viðskiptatækifæri og nýjungar í þjónustuframboði. Einnig var leitað álits hjá ráðgjöfum á sviði bankaviðskipta, hjá greinendum og hjá fjármálastjórum fyrirtækja.

„Við veitum Glitni viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur,“ segir Joseph D. Girraputo, útgefandi Global Finance. „Aðstæður eru mismunandi eftir markaðssvæðum, en vinningshafarnir vöktu allir athygli fyrir að sinna vel þörfum viðskiptavina sinna.“

Lesendur Global Finance eru stjórnarmenn, forstjórar og aðrir yfirmenn sem bera ábyrgð á fjárhagslegum og stefnumótandi ákvörðunum í stórum alþjóðlegum fyrirtækjum og fjármálastofnunum. Global Finance leggur einnig áherslu á að ná til 8,000 lykilfjárfesta sem ráða yfir 80% allra eigna sem eru í eignastýringu á vegum fagaðila.

Meðal annarra banka sem fengu verðlaun Global Finance að þessu sinni voru: Citi Bank í Bandaríkjunum, RBC Capital Markets í Kanada, Danske Bank í Danmörku, DnBNor í Noregi, SEB í Svíþjóð, Barclays í Bretlandi, OKO Bank í Finnlandi,  Societe Generale í Frakklandi, Deutsche Bank í Þýskalandi, ABN AMRO í Hollandi, UBS í Sviss og HSBC í Hong Kong.

Eftir verðlaunaafhendinguna í Washington DC, sagði Lárus Welding, forstjóri Glitnis:

„Ég er mjög stoltur af því að taka við þessum verðlaunum fyrir hönd samstarfsmanna minna hjá Glitni. Sem rótgróinn banki á Íslandi og á Norðurlöndunum og sem banki í örum vexti á alþjóðlegum markaði þá er markmið okkar að bjóða viðskiptavinum okkar  trausta, sveigjanlega og framsækna bankaþjónustu. Við nýtum okkur þá sérfræðiþekkingu sem fyrir hendi er innan bankans á alþjóðlegum vettvangi til að bjóða viðskiptavinum okkar, hvort sem þeir eru í Bandaríkjum, Íslandi eða Kína, framúrskarandi þjónustu. Það er þess vegna fyrir dugnað og góðan árangurs starfsmanna bankans um allan heim sem við tökum nú við verðlaunum fyrir hönd Glitnis á Íslandi.“