„Það kemur fram í þingmálaskránni að möguleiki er á því að leggja fram þessa tillögu, en hún er hins vegar ekki komin á það stig að ég geti sagt hvenær eða hvort hún verður lögð fram,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, um möguleika þess að ný þingsályktunartillaga verði lögð fram á þingi um að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Gunnar Bragi segir að áður en til þess gæti komið yrði að bera tillöguna undir ríkisstjórn og fá samþykki fyrir því að leggja hana fram. Hans vilji sé hins vegar ljós í málinu.

„En þetta mál er þannig statt, bæði hér á Íslandi og í Evrópusambandinu að það væri glórulaust að ganga ekki frá þessu máli,“ segir Gunnar Bragi.