Kvikmyndaverið Atlantic Studios opna á Ásbrú í Reykjanesbæ á morgun. Kvikmyndaverið er mjög glæsilegt og með mikla þjónustu í námunda og getur boðið upp á aðstöðu jafnt á við það besta í Evrópu.

Þetta kemur fram á vef Víkurfrétta en húsið sem er gamalt flugskýli hersins er alls 5000 fm2 og skiptist í kvikmyndaver sem er 2200 fm2, í skrifstofurými, geymslur, hreinlætisaðstöðu og veitingaaðstöðu sem er 2800fm, og í útisvæði sem er 7000 fm2 og allt innan girðingar.

Fram kemur að húsnæðið hefur verið endurbætt gríðarlega síðustu mánuði og hefur það t.d verið alveg hljóðeinangrað sem og að rafmagnsmál hafa verið endurnýjuð til að standast kröfur stærstu kvikmyndaframleiðanda í heiminum í dag.

Einnig má geta þess að útsogskerfið í húsinu er svo fullkomið að hægt er að reykræsta húsið á þremur mínútum.

Sena er einn eigenda kvikmyndaversins og mun sjá um rekstur þess. Stefnt er að því að bjóða öðrum íslenskum framleiðendum og þjónustuaðilum kvikmyndaiðnaðarins aðkomu að eignarhaldi og rekstri fyrirtækisins.

Sjá nánar á vef Víkurfrétta.