*

miðvikudagur, 3. mars 2021
Innlent 21. janúar 2016 13:28

Glu Mobile fjárfestir í Plain Vanilla

Tölvuleikjaframleiðandinn bandaríski mun fjárfesta í Plain Vanilla fyrir allt að 970 milljónir króna.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Bandaríski tölvuleikjaframleiðandinn Glu Mobile Inc mun fjárfesta allt að 7,5 milljónum Bandaríkjadala, eða 970 milljónum króna, í íslenska tölvuleikjafyrirtækið Plain Vanilla.

Plain Vanilla er þekkt fyrir að hafa gert leikinn QuizUp, sem er spurningaleikur fyrir snjallsíma. Viðskiptablaðið fjallaði áður um að félagið hefði tryggt sér fjármögnun.

Glu Mobile er skráð í bandarísku NASDAQ kauphöllina. Kínverska fyrirtækið Tencent, sem er einnig meðal stærstu hluthafa Plain Vanilla, keypti þá 15% hlut í Glu Mobile fyrir um 15 milljarða króna í apríl í fyrra.

Samkvæmt fréttatilkynningu munu Glu og Plain Vanilla vinna saman að þróun QuizUp sjónvarpsþáttarins, sem tilkynnt var um að hæfist framleiðsla á í fyrra. NBC mun framleiða 10 þátta seríu sem byggir á QuizUp-leiknum. Þátturinn verður í líkingu við “Viltu vinna milljón” þættina, þar eð hann kjarnast á spurningaleik og hárri peningasummu sem fer til vinningshafans.

Þá mun Niccolo de Masi, forstjóri Glu, taka sér sæti í stjórn Plain Vanilla, og auk þess mun Glu öðlast kauprétt á öllu hlutafé Plain Vanilla á fyrirfram umsömdu verði.

Haft er eftir Þorsteini B. Friðrikssyni, forstjóra og stofnanda Plain Vanilla, að félagið hlakki til að nýta sér þær dreifingarleiðir sem Glu hefur yfir að ráða:

„Á árinu 2015 varð QuizUp að spurningaleikjaneti með einkenni samfélagsmiðils, öllum notendum var gert kleift að búa til spurningar í My QuizUp og tilkynnt var að sjónvarpsrisarnir NBC og ITV hefðu keypt réttinn til að framleiða QuizUp America spurningaþáttinn.

2016 verður ekki síður spennandi. Við hlökkum til að nýta okkur þær dreifingarleiðir sem Glu hefur yfir að ráða og einnig sérþekkingu þeirra og reynslu til þess að stækka notendahóp QuizUp’s í gegnum farsíma sem og önnur tæki og miðla.“