Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors (GM) leggur nú drög að því að segja upp allt að 5 þúsund manns.

Bloomberg fréttaveitan greindi frá því í gærkvöldi að félagið, sem fékk rúmlega 13 milljarða dala neyðarlán frá bandarískum yfirvöldum rétt eftir áramót, þyrfti að sýna fram á að rekstur þess geti gengið áfram en það eru skilyrði fyrir láninu.

Lánveitingin fer þannig fram að hluti lánsins var afhentur í byrjun janúar (tæpa 9 milljarða dali) en restin (rúml. 4 milljarðar) verður afhent í apríl þegar félagið er búið að leggja fram „raunhæfa rekstraráætlun“ eins og Bloomberg orðar það, sem sýnir fram á að rekstur félagsins geti gengið áfram.

Ef félagið getur ekki sýnt fram á raunhæfa rekstraráætlun fær það í fyrsta lagi ekki restina af láninu og endurgreiðslutíminn verður styttur á því sem búið er að afhenta.

Fram kemur í frétt Bloomberg að GM sagði upp um 5 þúsund manns á síðasta ári, þó ekki öllum í einum heldur var félagið að segja upp fólki smátt og smátt yfir árið. Nú lítur hins vegar allt út fyrir að svipuðum fjölda verði sagt upp fyrir 31. mars næstkomandi en félaginu ber að afhenta stjórnvöldum rekstraráætlun þann 17. febrúar næstkomandi.