Bandaríska bílafyrirtækið General Motors (GM) hefur tilkynnt að það muni fækka „hvítflibbastarfsmönnum“ (e. white collar worker) um 20%. Minnkun launakostnaðar er meðal þess sem félagið grípur nú til vegna minnkandi sölu bíla sinna.

GM hyggjast einnig selja eignir að andvirði 4 milljarða Bandaríkjadala og verða sér úti um 2 milljarða að auki að láni. Einnig verður klippt á arðgreiðslur frá félaginu.

Á fyrri helmingi ársins hefur sala stórra bíla félagsins minnkað um 21% og heildarsala fallið um 16%.

Í tilkynningu til starfsmanna sagðist forstjóri GM, Rick Wagoner, hafa vel ígrundaða og örugga áætlun á prjónunum til að láta GM skila hagnaði.

GM tilkynnti um lokun fjögurra verksmiðja í síðasta mánuði. Hlutabréf félagsins hafa ekki verið lægri í 53 ár og nýlega sagði bandarískur fjárfestingabanki gjaldþrot GM ekki vera óhugsandi, samkvæmt frétt BBC.