General Motors, bílaframleiðandinn, hvetur nú um 28 prósent starfsmanna sinna í Bandaríkjunum til þess að fara fyrr á eftirlaun.

Fyrirtækið hyggst með þessu draga úr þeim kostnaði sem fylgir launagreiðslum en fjárhagsvandi innan bílaiðnaðarins hefur verið talsverður undanfarð eins og tíðrætt hefur verið.

Reuters fréttaveitan greinir frá þessu og í frétt þeirra segir að um 9000 starfsmanna GM í Bandaríkjunum hafi fengið hvattningu til þess að setjast í helgan stein.

Haft er eftir talsmanni GM að hann staðfesti aðgerðir fyrirtækisins en hann vilji ekki gefa upp fjölda starfsmanna sem um ræðir.

General Motors er stærsti bílaframleiðandi Bandaríkjanna og hjá fyrirtækinu eru um 32 þúsund starfsmenn í fastri vinnu. Þeir 9000 starfsmenn sem fengið hafa umrætt tilboð hafa 45 daga til þess að taka því.

GM tilkynnti í júlí að fyrirtækið myndi reyna að draga úr kostnaði við ýmis skrifstofustörf sem svarar um 20 prósenta niðurskurði.

Fyrirtækið hefur tapað u.þ.b. 51  milljarði Bandaríkjadala á síðustu þremur árum, vegna þessa hefur GM þurft að loka verksmiðjum og draga umtalsvert úr kostnaði.

Sala á bílum hefur legið niðri undanfarið m.a. vegna hækkandi olíuverðs, sala  minnkaði t.d. um 16 prósent á fyrri helmingi þessa árs.