Búast má við því að bandaríski bílaframleiðandinn General Motors (GM) muni tilkynna í dag að félagið hyggist hefja endurgreiðslur á 6,7 milljarða dala neyðarláninu sem félagið fékk frá bandaríska ríkinu um síðustu áramót.

Þetta kemur fram á vef Reuters fréttastofunnar en fréttastofan vitnar í ónafngreindan heimildarmann sem sagður er kunnugur málinu.

GM kynnti í morgun fyrsta ársfjórðungsuppgjör sitt eftir að félagið fékk samþykkta greiðslustöðvun í júlí s.l. en frá þeim tíma hefur GM tapað um 1,2 milljörðum dala. Þrátt fyrir það hyggst félagið greiða um 1 milljarða dala til baka um næstu áramót. Á sama tíma hyggst félagið greiða um 200 milljón dali til ríkisstjórnar Kanada sem lánaði félaginu 1,4 milljarð á síðasta ári.

Í framhaldi af þessu hyggst félagið greiða ársfjórðungslega inn á lánin.

General Motors ber þó engin skylda til að greiða af lánunum fyrr en í júlí 2015. Heimildir Reuters herma að félagið vilji þó sem fyrst losa sig undan lánunum hins opinbera. Það sama hefur gerst með flesta banka sem fengið hafa lán hjá hinu opinbera.