Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors er að íhuga að losa sig við starfsemi sína í Evrópu með því að selja Opel og Vauxhal vörumerkin sín.

Hins vegar hafa verkalýðsleiðtogar og stjórnmálamenn í Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi lýst yfir áhyggjum af hugmyndunum því störf gætu tapast ef kaupandinn verður franski keppinauturinn PSA sem á bæði Peugeot og Citroen.

Verkalýðsfélög ætla ekki að leyfa niðurskurð

„Við ætlum okkur ekki að leyfa að eitt einasta starf tapist," sagði Len McCluskey, aðalritari breska Unite verkalýðsfélagsins í sjónvarpsviðtali.

„Við ætlum okkur ekki að sitja á hliðarlínunni og leyfa þessu að gerast, og vonandi munu ríkisstjórnir okkar ekki gera það heldur."

Heildartap nemur tæpum 2 milljörðum

Starfsmenn GM í Evrópu eru 38 þúsund talsins, þar af 18 þúsund sem starfa fyrir Opel í Þýskalandi og 4.300 sem starfa fyrir Vauxhall í Bretlandi. Jafnframt hafa verkalýðsfélög áhyggjur af niðurskurði hjá PSA ef samningar um söluna takast milli aðilanna.

Fyrirtækið hefur ekki náð að skila hagnaði í heilt ár af starfsemi sinni í Evrópu síðan 1999, og er heildartap þeirra frá aldamótum meira en 18 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur 1.992 milljörðum króna.

Nálega 70% minna tap

Einna besti árangurinn náðist þó á síðasta ári með tapi sem nam einungis 257 milljón dölum, sem er lækkun um 68% frá árinu 2015.

Áhyggjur af úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu, auk mögulegs bakslags í kosningum í Frakklandi og Þýskalandi seinna á árinu flækir stöðuna enn frekar fyrir GM, sérstaklega þar sem franska ríkisstjórnin á 14% í Peugeot.

Evrópa stendur fyrir 12% bílasölunnar

Um 1,2 milljón Opel og Vauxhall bílar voru seldir í Evrópu á síðasta ári, sem er þó einungis brot af þeim bílafjölda sem fyrirtækið hefur selt í Kína og Bandaríkjunum, en á hvorum stað fyrir sig seldust 3 milljónir bíla frá GM.

Samt sem áður nemur salan í Evrópu um 12% af heildarsölu fyrirtækisins. Fyrir þremur árum seldi GM Chevy vörumerkið í Evrópu.

Árið 2009 var félagið búið að ná samkomulagi um sölu á Opel til kanadíska bílapartaframleiðandans Magna International, en hætti við það í kjölfar þess að GM komst upp úr því að vera úrskurðað gjaldþrota.