Daewoo Automotive & Technology í Kóreu sem er í eigu General Motors (GM) kynnir í þessari viku á bílasýningunni í Genf nýja smábílinn Spark undir merki Chevrolet. Spark kemur á markað í Evrópu á næsta ári og líka í Bandaríkjunum sem alls ekki var ætlunin þegar hönnun hans hófst fyrir tveim árum.

Spark á að koma á Evrópumarkað snemma á árinu 2010 og verður í boði með 1,0 og 1,2 16 ventla bensínvélum fyrir Evrópumarkað og 1,4 lítra fyrir Bandaríkjamarkað. Þetta er mjög lítill bíll og m.a. rúmum 25 sentímetrum styttri en Honda Jazz.

Hækkun eldsneytisverðs og efnahagskreppan breyttu í fyrra snarlega áforum GM um markaðssetningu bílsins. Áður hafði GM veðjað á áframhaldandi gott gengi stórra bíla í Bandaríkjunum en þær hugmyndir hafa nú gjörbreyst vegna ört vaxandi áhuga á sparneytnum og ódýrum bílum.