General Motors (GM), stærsti bílaframleiðandi Bandaríkjanna, býst við að eyða um 900 milljónum Bandaríkjadala á næstu árum í að aðlaga verksmiðjur sínar að breyttu landslagi á bílamarkaðnum.

GM hyggst draga saman seglin og í því felst að loka sumum verksmiðjum fyrirtækisins og minnka framleiðslu annarra.

Í ársfjórðungsuppgjöri GM er greint frá áætlun félagsins, sem felur í sér að eyða 100 milljónum dala á árinu 2008, 200 milljónum árið 2009 og 600 milljónum eftir árið 2009 í breytingarnar.

Tap GM á öðrum fjórðungi nam 15,5 milljörðum dala og félagið tilkynnti í framhaldi af uppgjörinu að það hyggðist minnka kostnað sinn um 10 milljarða. Meðal annars stendur til að fækka millistjórnendum og minnka bónusgreiðslur.