*

sunnudagur, 24. október 2021
Erlent 1. desember 2020 08:53

GM mun ekki fjárfesta í Nikola

Hlutabréf Nikola hafa lækkað um fimmtung fyrir opnun markaða, General Motors mun ekki fjárfesta í Nikola líkt og áður stóð til.

Ritstjórn
Trevor Milton stofnandi Nikola sagði af sér í september síðastliðnum.
Aðsend mynd

General Motors mun ekki fjárfesta í rafbílaframleiðandanum Nikola eins og áður stóð til. Hlutabréf Nikola lækkuðu um tæplega átta prósent í viðskiptum gærdagsins en hafa lækkað um 19% fyrir opnun markaða í dag.

Sömuleiðis munu áðurnefnd fyrirtæki ekki hefja samstarf um framleiðslu á pallbíl Nikola sem ber heitið Badger, að því er segir í frétt Yahoo Finance um málið. Í septembermánuði síðastliðnum tilkynnti Nikola að félagið hefði valið GM til þess að aðstoða við framleiðslu á fyrrnefndum bíl.

Einnig stóð til að GM myndi eiga hlutabréf í Nikola fyrir um tvo milljarða dollara sem og að ákveða einn stjórnarmann. Hlutabréf Nikola hækkuðu um allt að helming vegna tíðindanna. 

Sjá einnig: Viðburðaríkt ár hjá Nikola & Tesla

Nikola hefur verið ásakað um að hafa blekkt fjárfesta en stofnandi og þáverandi forstjóri Nikola, Trevor Milton, sagði af sér í kjölfar ásakananna. Skortsalinn og greiningaraðilinn Hindenburg Research birti 67-blaðsíðna skýrslu þar sem félaginu var til að mynda lýst sem „flókinni svikamyllu“.

Þrátt fyrir lækkunina hafa hlutabréf Nikola nær þrefaldast það sem af er ári. Markaðsverð félagsins þegar þetta er skrifað er tæplega ellefu milljarða dollarar, andvirði 1.427 milljarða króna.

Stikkorð: General Motors Nikola