Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors (GM) hefur fengið leyfi bandarísks gjaldþrotadómstóls til að selja eignir úr þrotabúi sínu en félagið fór í gær fram á gjaldþrotabeiðni.

Um er að ræða stærsta gjaldþrot iðnframleiðanda í Bandaríkjunum í sögunni. Talið er að bandaríska fjármálaráðuneytið kaupi stærstu bita þrotsbúsins fyrir lítið, þar sem ráðuneytið er í dag stærsti kröfuhafi á hendur GM eftir að hafa veitt félaginu um 20,5 milljarða dala neyðarlán á síðustu 6 mánuðum en heildarskuldir GM námu fyrir helgi um tæpum 173 milljörðum dala.

En þar með er ekki öll sagan sögð. Félagið fékk einnig heimild gjaldþrotadómstólsins í New York til að taka lán upp á um 15 milljarða til viðbótar. Bandaríska fjármálaráðuneytið hefur ákveðið að láta félaginu um 50 milljarða dali í té geng yfirtöku um 60% hlut í félaginu. Þannig eignast stjórnvöld meirihluta í félaginu og fá leyfi til að endurskipuleggja það. Allt er þetta gert til að reyna að viðhalda þeim verðmætum sem þegar eru til að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

„Það er í raun bara einn aðili sem hefur burði til að kaupa félagið,“ segir Harvey Miller, lögfræðingur GM í samtali við Bloomberg og vísar þar á bandarísk yfirvöld.

GM er um hundrað ára gamalt félag og hefur síðustu 77 árin verið stærsti bílaframleiðandi Bandaríkjanna. Samkvæmt fréttaskýringu Bloomberg verður nýtt félag reist úr rústum þess gamla á 60 – 90 dögum og lögð verður áhersla á að framleiða vinsælustu bíla GM, svo sem Cadillac, Chevrolet, Buick og GMC. Þá verða aðrar framleiðsludeildir, t.a.m. Saturn og Hummer seldar í samráði við gjaldþrotadómstóla.

Um 100 þúsund aðilar eiga kröfu í þrotabúið en meginþorri þeirra telst til smærri kröfuhafa. Þegar gjaldþrotabeiðnin var lögð fram fyrir dómstóla í gær sögðu lögmenn GM að flestir kröfuhafanna ættu að geta endurheimt kröfur sínar þegar búið er að endurreisa félagið.

Tæplega 173 milljarða dala skuld

Eins og fyrr segir fór félagið fram á gjaldþrotabeiðni í gær þegar ljóst var að ekki tækist að semja um og greiða skuldir þess en þær nema alls 172,8 milljörðum dala, sem er rúmlega tvöfalt meira en eignir félagsins.

Á meðal stærstu kröfuhafa, fyrir utan bandaríska ríkið, eru Wilmington Trust sem fulltrúi skuldabréfaeigenda að verðmæti 22,8 milljarða dala. Þá eru aðilar á borð við International Union, United Automobile og Aerospace and Agricultural Implement Workers of America með kröfu upp á tæpa 21 milljón dala. Loks kemur Deutsche Bank með um 4,4 milljarða dala kröfu sem fulltrúi skuldabréfaeigenda.