General Motors kynnti í gær harkalegar áætlanir í þeirri viðleitni að bjarga bílasamsteypunni frá gjaldþroti. Ráðgert er að segja upp 21.000 manns til viðbótar þeim sem þegar hefur verið sagt upp og loka Pontiac verksmiðjunni í Orion.

Er þetta gert til að mæta kröfum ríkisstjórnar Obama sem hafnaði frekari lánveitingum til GM á þeim forsendum að niðurskurður á starfseminni væri ekki nógu mikill og hraður.

Yfirvöld í Orion tala um hörmungar fyrir samfélagið ef Pontiac verksmiðjunum verði lokað að því er fram kemur í The Detroit News. Talað er um draugabæ í þessu sambandi og að þessi lokun muni hafa keðjuverkandi áhrif á samfélagið á stóru svæði.

Frá því í desember á síðasta ári og út þetta ár er gert ráð fyrir að lánveitingar og aðstoð opinberra aðila við GM muni nema samtals 27 milljörðum dollara. Í staðinn var gert ráð fyrir að GM segði upp 34% starfsmanna sinna þannig að eftir verði 40.000. Einnig að lokað verði 42% af söluskrifstofum fyrirtækisins í Bandaríkjunum og að verksmiðjum yrði einnig lokað.

Þetta þýðir að GM muni loka 16 af 47 verksmiðjum í Bandaríkjunum fram til 2012. Búið á að vera að loka 13 þessara verksmiðja fyrir lok árs 2010, þar af 6 á þessu ári. Hluti af þessum ráðstöfunum var að setja Hummer, Saab og Saturn á sölulista, en síðastnefnda fyrirtækið framleiðir m.a. hina þekktu bifreiðategund Pontiac. Mjög erfiðlega hefur þó gengið að finna kaupendur að þessum verksmiðjum.