Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors hefur náð samkomulagi um sölu á 51% hlut í GMAC, sem er fjármögnunararmur GM, segir greiningardeild Landsbankans.

Kaupendurnir eru hópur fjárfesta með Cerberus Capital Management í fyrirrúmi en meðal kaupenda eru einnig Citigroup og Aozora Bank. Kaupverðið er um 1.000 milljarðar íslenskra króna og greiðist rúmur helmingur kaupverðs strax. Eftirstöðvarnar greiðast síðan til GM á næstu þremur árum.

GM heldur þó eignum sem metnar eru á um 292 milljarða

GM á í miklum fjárhagserfiðleikum og hefur salan á GMAC staðið til í nokkurn tíma, segir greiningardeildin.

Telja sérfræðingar að salan muni styrkja GM til lengri tíma litið, og að Standard & Poor's og Fitch muni jafnvel hækka lánshæfismat sitt á GMAC ef nýir eigendur reynast vera með stöðugri fjármögnunarstarfsemi en GM.

S&P segja þó að lánshæfismat GM gæti lækkað enn frekar vegna óstöðugleika hjá birgjum félagsins.

GMAC mun áfram veita GM fjármálaþjónustu en andvirði sölunnar gefur GM aukið svigrúm til að vinna að enduruppbyggingu. Þó er ekki gert ráð fyrir að salan gangi í gegn fyrr en í lok árs þar sem bíða þarf eftir samþykki samkeppnisyfirvalda og fleiri aðila.

Gengi bréfa í GM hækkuðu um 3% fyrir opnun markaða í dag.