Búist er við að bílarisinn General Motors (GM), sem skuldar 62 milljarða bandaríkjadala, óski eftir gjaldþrotaskiptum næsta mánudag. Það er liður í því að endurskipuleggja alla starfsemina og losna við skuldir í eitt skipti fyrir öll.

Gjaldþrotið verður hið stærsta nokkru sinni í Bandaríkjum og þar með lýkur 101 árs sögu GM sem sjálfstæðs fyrirtæki.

Nýtt fyrirtæki sem reist verður á rústum hins gamla verður undir stjórn bandaríska fjármálaráðuneytisins. Búist er við að ráðuneytið leggi því til 50 milljarða dala til viðbótar 19,4 milljarða neyðarláni sem fyrirtækið hafði áður fengið. Þá er gert ráð fyrir að ríkisstjórn Kanada leggi 9 milljónir bandaríkjadala í púkkið.

Nýja fyrirtækið, sem að líkindum mun halda nafni þess gamla, verður að 72,5% í eigu bandaríska ríkisins en það mun svo selja hlut sinn eftir því sem fram líða stundir. Gert er ráð fyrir að nýja GM verði sett á markað eftir 6-18 mánuði.